Um okkur
Farmers Market er íslenskt hönnunarfyrirtæki, stofnað 2005 af hjónunum
Bergþóru Guðnadóttur hönnuði og Jóel Pálssyni tónlistarmanni.
Innblástur er sóttur í ræturnar; íslenska arfleið, náttúru og menningu svo úr verður vörulína þar sem klassísk norræn hönnunarstef kallast á við mínímalískan módernisma þar sem sveitarómantíkin er aldrei langt undan.
Sjálfbærni, notagildi og virðing fyrir umhverfinu eru leiðarstef fyrirtækisins en fatnaðurinn hentar við fjölbreytt tilefni, útivist til jafns við borgarlíf.
Við staðsetjum okkur á krossgötum, skurðpunkti þar sem fortíð mætir nútíð, hið þjóðlega mætir hinu alþjóðlega og sveitin mætir borginni. Okkur þykir spennandi að bræða saman þessa heima.
Við trúum því að sjálfbærni í hönnun sé ekki bara tískubóla heldur lykill að framtíðinni. Eins og nafn fyrirtækisins gefur til kynna leggjum við áherslu á að nota náttúruleg hráefni í vörur okkar. Gerviefni eru einungis notuð til styrkingar, til að hrinda frá vatni eða í einstaka smáatriði sem við teljum mikilvæg í hönnuninni.
Við erum stolt af því að vinna með mörgum alþjóðlegum textílframleiðendum í fremstu röð. Meðal hráefna sem við notum í vörulínu okkar er merino og mohair band frá Ítalíu, vaxborin bómull frá Bretlandi, indverskt silki að ógleymdri hinni einstöku íslensku ull.
Að sama skapi vöndum við vel valið á framleiðendum til samstarfs, á Íslandi eða erlendis. Það er okkur hjartans mál að vinna með fólki sem deilir þeiri sýn með okkur að búa til fallega vörulínu í háum gæðaflokki í eins mikilli sátt við fólk og umhverfi og kostur er.
Verslanir okkar:
Farmers & Friends
Höfuðstöðvar okkar eru í gömlu fiskvinnsluhúsi á Grandanum í Reykjavík. Grandinn er spennandi svæði í hraðri uppbyggingu þar sem hönnunarverslanir, listagallerí, veitingahús og sælkerabúðir blandast á skemmtilegan hátt við hefðbundna fiskvinnslu svo úr verður líflegt hverfi steinsnar frá miðbæ Reykjavíkur.
Á Hólmaslóð 2 á Grandanum erum við með á einum stað hönnunarstúdíó okkar og flaggskips-verslun sem við köllum Farmers & Friends. Í versluninni fæst öll vörulína Farmers Market auk ýmis varnings sem okkur þykir ríma vel við konsept okkar.
Í maí 2017 opnuðum við svo aðra verzlun í fallegu húsi við Laugaveg 37.
Hvar eru verslanirnar?
Farmers & Friends | Hólmaslóð 2 | Grandi
101 Reykjavík
Sími: 552 1960
Opnunartímar:
Mán-fös :10-18 | Lau-sun: 11-18
LOKAÐ í báðum verslunum 5.ágúst - frídegi verslunarmanna
Farmers & Friends | Laugavegi 37
101 Reykjavík
Sími: 552 1965
Opnunartímar:
Mán-fös 10-18 | Lau-sun: 11-18
Hvernig kemst ég þangað?
Verslun okkar á Grandanum:- Akandi/hjólandi um Grandagarð eða Fiskislóð. Næg bílastæði eru við verslunina.
- Strætó nr. 14 (gengur m.a. úr miðbænum). Biðstöðin 'Grandi' er um 100 m frá versluninni.
- Gangandi um Grandagarð. Um 20 mín gangur er úr miðbænum (1,5 km)